Saga Eymundsson

 

Það var athafnamaðurinn Sigfús Eymundsson (1837 – 1911), lærður ljósmyndari og bókbindari, sem  stofnaði Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 29. nóvember 1872. Bókaútgáfu hóf Sigfús árið 1886 og lagði áherslu á útgáfu vandaðra bóka, sem höfðu ótvírætt menningargildi og nytsamar fræðibækur fyrir almenning. Fyrsta útgáfubókin var Stjörnufræði eftir B. Jensson. Af öðrum bókum, sem hann gaf út kringum aldamótin 1900 má nefna Sálmabókina nýju, kvæði Bólu-Hjálmars, sem Hannes Hafstein bjó til prentunar, rit Gests Pálssonar, Sálmasöngbók síra Bjarna Þorsteinssonar, tímaritin Sjálfsfræðarann og Eir. Undir merkjum Bókaverslunar Sigfúsar Eymundssonar voru bækur gefnar út í áratugi. Sigfús flutti inn ýmsar vörur, varð t.d. fyrstur manna til að flytja inn peningaskápa, sjálfblekunga og ritvélar. Hann var líka sá fyrsti til að selja póstkort á Íslandi, og tók hann sjálfur myndirnar.

Árið 1908 hafði Pétur Halldórsson 1887 – 1940 spurnir af því að heilsu Sigfúsar Eymundssonar væri farið að hraka og að hann hyggðist selja verslunina. Pétur keypti bæði bókaverslunina og bókaútgáfuna. Hann tók við rekstrinum 1. janúar 1909 og rak verslunina og bókaútgáfuna áfram undir sama nafni.  Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar hélt áfram að blómstra undir stjórn Péturs. Hann leigði húsnæðið í Lækjargötu 2, en þar sem til stóð að segja upp leigusamningnum, keypti hann árið 1920 gamalt steinhús, Austurstræti 18  og opnaði þar stærri og nýtískulegri verslun – í hjarta borgarinnar þá sem endranær. Eftir farsælan verslunarrekstur rekstur í tuttugu og sex ár var Pétur kosinn borgarstjóri Reykjavíkur haustið 1935 og blasti þá við að hann gæti ekki samhliða svo miklu ábyrgðarstarfi staðið í umfangsmiklum fyrirtækjarekstri. Björn, sonur hans, tók þá við stjórn fyrirtækisins og veitti því forstöðu til ársins 1959.

Árið 1959 urðu mikil tímamót þegar Almenna bókafélagið keypti Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Gamla húsið við Austurstræti 18 var rifið og byggja skyldi nýtt. Þann 19. nóvember 1960, fjórtán mánuðum eftir að byggingarframkvæmdir hófust, var bókaverslunin svo aftur komin á sinn gamla reit þegar Almenna bókafélagið opnaði glæsilega bókaverslun í nýja húsinu að Austurstræti 18.

Leita í öllu
  • Leita í öllu
  • Bækur
  • Rafbækur
  • Tímarit
  • CD & DVD
  • Leikföng
  • Ritföng ofl.
  • FerdavÖrur
  • Visitors
ÓskalistiKarfaengar vörur í körfu 
Opnunartími verslana